Trausti Jónsson veðurfræðingur segir að aprílmánuður hafi verið í heitari kantinum miðað við fyrri ár þrátt fyrir að mörgum kunni að hafa þótt hann kaldur í ár. Langur vegur sé frá því að apríl hafi verið sérstaklega kaldur í sögulegu ljósi.
„Það hefur verið úrkomusamt og illviðri hafa kannski verið með meira móti. Úrkoman hefur verið talsvert yfir meðallagi,“ segir Trausti. Hins vegar hafi hitinn bæði í Reykjavík og á Akureyri verið vel yfir meðallagi í apríl í ár. Apríl hafi þannig til að mynda verið heitari nú en hann var á síðasta ári.
Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir því að hiti verði á bilinu 6-13 stig á landinu fram á laugardag og hlýjast norðaustantil á landinu. Eftir helgi er síðan gert ráð fyrir að hitinn fari í 14 stig á Austurlandi bæði á mánudag og þriðjudag.