Sogamýri besti kosturinn fyrir tilbeiðsluhús

Svæðið liggur á milli Miklubrautar og Suðurlandsbrautar.
Svæðið liggur á milli Miklubrautar og Suðurlandsbrautar.

Skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti í gær að vísa lýsingu vegna deiliskipulags á hluta Sogamýri til umsagnar Skipulagsstofnunar, Hverfisráðs Laugardals og umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkur. Til stendur að reisa tilbreiðsluhús, n.t.t. mosku, á lóðinni. Var málinu vísað til borgarráðs.

Í sameiginlegri bókun fimm fulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og VG segir að niðurstaða skipulags- og byggingarsviðs sé sú að svæðið við Sogamýri sé besti kosturinn. Fulltrúarnir séu sammála henni og fagni því að loksins hilli undir tillögu að lausn málsins. 

Aðrar lóðir henti betur

Þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skipulagsráði, þau Júlíus Vífill Ingvarsson, Marta Guðjónsdóttir og Jórunn Frímannsdóttir, sátu hjá við afgreiðslu málsins. Borgarfulltrúarnir segja að verulega sé þrengt að þeim hugmyndum sem séu í vinnslu varðandi nýtingu svæðisins. Heildarhugsun í skipulagi sé látin víkja og margar aðrar lóðir henti betur fyrir tilbeiðsluhús.

Bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er svohljóðandi:

„Lóð sú sem nú er verið að afmarka með nýju deiliskipulagi er á opnu grænu svæði á milli Suðurlandsbrautar og Miklubrautar á móts við Steinahlíð. Ekki hafa fram til þessa verið uppi áform um að heimila uppbyggingu á svæðinu en ljóst má þó vera að komi til þess verða þær byggingar, sem þar rísa, að vera í mjög háum gæðaflokki enda er lega lóðarinnar þannig að hús á henni munu sjálfkrafa verða kennileiti í borginni. Endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur sem ná mun til ársins 2030 er nú langt komin en eitt af þeim svæðum, sem þar er til skoðunar með tilliti til borgarþróunar í framtíðinni, er einmitt það, sem nú er verið að deiliskipuleggja fyrir tilbeiðsluhús. Með því er þrengt verulega að þeim hugmyndum sem eru í vinnslu varðandi nýtingu svæðisins. Það er á skjön við vinnubrögð skipulagsráðs að taka einstakar lóðir út fyrir sviga með þessum hætti og láta heildarhugsun í skipulagi víkja. Á annan tug lóða hafa verið til skoðunar vegna lóðar fyrir tilbeiðsluhús. Margar þeirra henta betur en sú sem hér er til umræðu.“

Vandaður undirbúningur

Bókunin borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og VG er eftirfarandi:

„Fullrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna í skipulagsráði telja undirbúningu vegna deiliskipulags við Sogamýri hafa verið vandaðan enda hefur hann staðið í mörg ár. Á annan tug staða í borginni hafa verið skoðaðir fyrir tilbeiðsluhús. Niðurstaða skipulags- og byggingarsviðs er sú að svæðið við Sogamýri sé besti kosturinn. Fulltrúar Besta flokks, Samfylkingar og Vinstri Grænna eru sammála þessari niðurstöðu og fagna því að loksins hillir undir tillögu að lausn á þessu máli, þó enn eigi sjálfsagt samráð og kynningarferli eftir að eiga sér stað við íbúa borgarinnar.“

Lýsing fyrir deiliskipulagi í Sogamýri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert