Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir á bloggvef sínum í kvöld, að nánast allt sem sett sé fram í atvinnuleið Samtaka atvinnulífsins séu markmið og aðgerðir sem ríkisstjórnin vinni eftir eða hafi áorkað nú þegar.
„Það er enginn raunverulegur ágreiningur um nokkurn skapaðan hlut, nema þá kröfu SA og LÍÚ að þeir fái að semja fiskveiðistjórnunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar og „klára málið á hálftíma”. Þar stendur hnífurinn í kúnni," segir Ólína.
Hún segir, að sú krafa sé hinn raunverulegi ásteitingarsteinn sem atvinnurekendur virðast tilbúnir að láta allt annað brotna á, þar með allan þann ávinning sem fyrirsjáanlega myndi hljótast af viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og aðgerðaráætlunum í atvinnumálum og efnahagslífi.