Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti Þóru Ellen Þórhallsdóttur náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti í dag.
Við sama tækifæri fengu Farfuglaheimilin í Reykjavík
afhentan Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu
umhverfisráðuneytisins, og nemendur Þjórsárskóla voru útnefndir varðliðar
umhverfisins.
Þetta er í annað sinn sem Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti er veitt. Fram kemur á vef umhverfisráðuneytisins, að Ellen Þórhallsdóttir hafi stundað merkar rannsóknir á gróðri Íslands og miðlað þekkingu sinni, ekki bara til stúdenta, heldur til þjóðarinnar allrar með fyrirlestrum og fjölmiðlaþátttöku. Hún sé óhrædd við að koma fram með vísindaleg rök til verndar náttúru Íslands þó það hafi ekki alltaf fallið að ríkjandi skoðunum.