Lokatilraun í dag

Forystumenn SA vonast eftir niðurstöðu í viðræðum við forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar …
Forystumenn SA vonast eftir niðurstöðu í viðræðum við forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar í dag.

Vil­hjálm­ur Eg­ils­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, seg­ir að ráðast muni í dag hvort viðræður við rík­is­stjórn­ina um aðgerðir vegna kjara­samn­inga ganga upp eða ekki.  

„Við erum alltaf í sam­skipt­um við for­ystu­menn rík­is­stjórn­ar­inn­ar og höf­um reynt að gera loka­tilraun til að ljúka mál­un­um gagn­vart þeim. Það ræðst í dag hvort það geng­ur eða ekki,“ seg­ir Vil­hjálm­ur.

Ef þetta geng­ur ekki eft­ir, verði að hans sögn að gera eitt­hvað annað en að fara at­vinnu­leiðina. „Því miður, vegna þess að hún er eina leiðin út úr krepp­unni. Þá vær­um við bara með ein­um eða öðrum hætti að hjakka í sama far­inu,“ seg­ir hann.

Sam­tök at­vinnu­lífs­ins funduðu í morg­un með samn­inga­nefnd­um iðnaðarmanna. Á fund­in­um lögðu iðnaðar­menn fram hug­mynd­ir um samn­ing til eins árs.

„Við ákváðum að hitt­ast aft­ur á morg­un. Þeir lögðu fram sín­ar hug­mynd­ir um eins árs samn­ing og við fór­um yfir stöðuna varðandi at­vinnu­leiðina og rædd­um fram og til baka hvað stæði útaf og hvað hægt væri að gera, bæði þeirra meg­in og okk­ar,“ seg­ir Vil­hjálm­ur.

Hann seg­ir að viðræðunum verði haldið áfram á morg­un hvort sem Samiðn og Rafiðnaðarsam­bandið hafa þá ákveðið að vísa deil­unni til rík­is­sátta­semj­ara eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert