Stjórn BSRB skorar á ríki og sveitarfélög að ganga nú þegar til
kjarasamninga við aðildarfélög BSRB. Stjórnin telur ólíðandi að
kjarasamningsgerð sé haldið í gíslingu með kröfu um að fámennum hópi
verði afhentar auðlindir landsins.
Fram kemur í tilkynningu á vef BSRB að ríki og sveitarfélög hafi í hálft ár komið sér undan því að hefja fyrir alvöru vinnu við gerð kjarasamninga og beri það vott um getu- og ábyrgðarleysi þeirra sem þar ráði.
Stjórnin hefur sent frá sér ályktun sem fer hér á eftir:
„Það er ljóst að atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði hafa haldið kjarasamningsgerð í gíslingu með kröfu um að fámennum hópi verði afhentar auðlindir landsins. Nú er mál að linni!
Kjarasamningar opinberra starfsmanna hafa nú verið lausir í nærri hálft ár. Ríki og sveitarfélög hafa á þeim tíma komið sér undan því að hefja fyrir alvöru vinnu við gerð kjarasamninga. Þessi staða er með öllu ólíðandi. Það ber vott um getu- og ábyrgðarleysi ríkisvaldsins og sveitarfélaganna að treysta sér ekki í viðræður með það að markmiði að ljúka gerð kjarasamninga. Í ljósi þess hvernig þessir aðilar hafa dregið samninga verður af hálfu aðildarfélaga BSRB gerð krafa um fulla afturvirkni kjarabóta þegar kjarasamningar verða gerðir.
BSRB hvetur fjármálaráðherra, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg til að viðurkenna ábyrgð sína gagnvart starfsmönnum sínum og fjölskyldum þeirra. Það er þjóðfélagsleg nauðsyn að hefja alvöru kjarasamningsviðræður án tafar.“