Beita þarf verkfallsvopninu

Mælirinn er fullur að mati ASÍ.
Mælirinn er fullur að mati ASÍ. mbl.is/Kristinn

ASÍ segir að nú séu þáttaskil og að aðildarsamtök ASÍ séu ekki til viðræðu um lengri samning en til eins árs. Í yfirlýsingu sem ASÍ hefur sent frá sér, undir yfirskriftinni „Mælirinn er fullur“ segir að nú sé sú stund runnin upp að beita þurfi verkfallsvopninu.

„Nú er svo komið að ekki verður lengur við makalausa framkomu SA búið. Hvert landssambandið innan ASÍ á fætur öðru hefur vísað kjaradeilunni við atvinnurekendur til ríkissáttasemjara og í flestum þeirra er farið að huga að verkfallsaðgerðum. Verkfallsvopnið er öflugt og notast aðeins í brýnni neyð. Nú er sú stund runnin upp að verkalýðshreyfingin sér ekki annan kost en að beita þessu vopni sínu,“ segir ASÍ.

„Samtök atvinnulífsins hafa haft landssamböndin innan ASÍ að ginningarfíflum í næstum hálft ár þar sem grímulaus hagsmunagæsla fyrir LÍÚ vegur þyngra en hagsmunir almenns launafólks. Nú verður látið sverfa til stáls í krafti samstöðunnar sem á tæpum hundrað árum hefur fært vinnandi fólki á Íslandi ófáa sigrana. Nú þarf að brjóta gíslatöku SA á bak aftur,“ segir ennfremur.

Þá segir að yfirlýsing SA frá því fyrr í dag þess efnis að samtökin vilji gera 3 ára kjarasamning komi of seint. Það sem hafi verið í umræðunni fyrir páska komi ekki lengur til greina. SA hafi hafnað þeim 3 ára kjarasamningi sem þá hafi legið á borðinu og hafi síðan gert kjarasamning nokkrum dögum síðar sem hafi falið í sér muni meiri hækkanir en menn hafi rætt fyrir páska.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert