Hætt að tala um þriggja ára samning

Guðmundur Gunnarsson á þingi Rafiðnaðarsambandsins í gær.
Guðmundur Gunnarsson á þingi Rafiðnaðarsambandsins í gær. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum hætt að tala um þriggja ára samning. Okkur kemur ekkert við hvað ríkisstjórnin var að svara [Samtökum atvinnulífsins] í gær,“ segir Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins. Náist ekki skammtímasamningur hefjast allsherjarverkföll 25. maí. 

„Iðnaðarmannasamfélagið mun hitta SA klukkan eitt. Við lögðum fyrir þá í gær drög að skammtímasamningi og þeir ætla að svara því á eftir hver þeirra viðbrögð eru við því,“ segir Guðmundur.

Guðmundur segir að SA og LÍÚ hafi sjálf sett möguleikann á þriggja ára samningi út af borðinu fyrir páska „og þar með er tal um þriggja ára samning ekkert inn í myndinni,“ segir hann.

Guðmundur segir að skýrt komi fram á þingi RSÍ sem nú stendur yfir að menn vilja samning fram í febrúar á næsta ári. „Ef það tekst ekki, þá er bara allsherjarverkfall 25. maí. Það verður allt stoppað,“ segir hann; Alcan, RARIK, Landsvirkjun, Síminn „og hreinlega allt. Það verða allar viðræður stoppaðar og það munu allir berjast með almenna markaðinum í þessu.“

„Við bíðum eftir svari SA klukkan eitt og síðan munum við afgreiða ályktanir á þinginu í samræmi við það svar væntanlega fyrir lok dagsins,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert