„Lágmarkstilvera er ekki í boði“

Berglind Nanna Ólínudóttir.
Berglind Nanna Ólínudóttir.

„Það er enginn sem velur sér þetta hlutverk. Það er enginn sem ríður feitum hesti frá því að vera á bótum frá Tryggingastofnun, það eru alveg hreinar línur,“ segir Berglind Nanna Ólínudóttir, öryrki.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að Berglind er metin með 75% örorku vegna geðhvarfasýki. Tekjur hennar á mánuði hljóða upp á 160 þúsund krónur eftir skatta, og er þar meðlag vegna sonar hennar meðtalið. Þegar fastir útgjaldaliðir eru frá, s.s. húsaleiga, rafmagn og afborgun láns, þá standa eftir 38.000 fyrir nauðsynjum eins og mat.

Berglind hefur ritað opið bréf til Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra, þar sem hún óskar eftir leiðbeiningum um hvernig hún eigi að hafa í sig og á. Og hvernig lifir maður svo á 38 þúsundum á mánuði?

„Ég get alveg sagt þér hvernig maður gerir það,“ segir Berglind. „Ég fer ekki út úr húsi, það er svo einfalt. Ég fer ekki í bíó eða leikhús. Ég fer ekki út á vídeóleigu, ég drekk ekki gos, borða ekki nammi, fer aldrei út að skemmta mér, drekk ekki áfengi. Ég á ekki bíl. Kaupi mér ekki föt eða skó eða fer til læknis. Ég hef ekki farið til tannlæknis í 10 ár, það er munaður sem er ekki í boði. Svo ég er að verða tannlaus, að verða 42 ára. Allt sem heitir lágmarkstilvera er ekki í boði. Ég geri ekkert.“


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka