Orkuframkvæmdir upp á 70-80 milljarða

Stjórnvöld lofa að greiða fyrir fjárfestingum m.a. í orku- og …
Stjórnvöld lofa að greiða fyrir fjárfestingum m.a. í orku- og iðnaðarmálum. mbl.is/Birkir

„Gangi öll virkjunaráform fyrir norðan eftir gæti þar verið um að ræða fjárfestingu upp á 70-80 [milljarða kr.], auk fjárfestinga orkukaupenda,“ segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til aðila vinnumarkaðarins sem afhent var ríkissáttasemjara í gærkvöldi.

Þar segir ennfremur að Landsvirkjun muni halda áfram umfangsmiklum rannsóknum í Þingeyjarsýslum og eigi nú þegar í viðræðum við nokkra aðila um fjárfestingar og orkukaup. „Þess er fastlega vænst að samningar takist fyrir lok þessa árs um í það minnsta tvö umtalsverð fjárfestingarverkefni sem ráðist verði í, þar af annað á Norðausturlandi, og að framkvæmdir við þau geti hafist þegar á næsta ári,“ segir í yfirlýsingunni.

Bent er á að þegar séu afráðnar fjárfestingar í Búðarhálsvirkjun, stækkun álversins í Straumsvík, kísilveri í Helguvík og í dreifikerfi Landsnets. „Framkvæmdir eru hafnar við álver í Helguvík, en það verkefni er í biðstöðu af ástæðum sem ekki snúa að stjórnvöldum, m.a. vegna óvissu um orkuöflun og samninga um orkuverð,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir einnig að lögð sé áhersla á að fjárfestingar í virkjunum og gerð raforkusamninga verði á viðskiptalegum grundvelli og taki tillit til umhverfisgæða. Stefnt sé að því að frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjana fallvatna og háhitasvæða verði afgreitt á vorþingi. Rammaáætlun verði lögð fram á næstu vikum.

Í yfirlýsingunni lýsa stjórnvöld sig reiðubúin að stuðla að nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins m.a. með því að skuldbinda sig til að framkvæmd kjarasamninga verði háð því að áform um aðgerðir sem taldar eru upp í yfirlýsingunni nái fram að ganga. Í því skyni verði lagt fram frumvarp (bandormur) á yfirstandandi þingi sem feli í sér flestar þeirra lagabreytinga sem leiða af kjarasamningum og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en önnur atriði verði lögð fyrir Alþingi á haustþingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka