Ríkisstjórnin lýsir sig reiðubúna að láta persónuafslátt fylgja verðlagsbreytingum og hann hækki í byrjun næsta árs. Á þessu stigi eru ekki áform um breytingar á skattlagningu launatekna á árunum 2012 og 2013, segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til aðila vinnumarkaðarins.
Skoða á mögulega hækkun á krónutölu persónuafsláttar eða ígildi hennar með lækkun skatthlutfalls í lægsta skattþrepi frá árslokum 2012.
Lofað er endurskoðun á bótum almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga milli ASÍ og SA, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningum.
Endurskoða á tekju- og eignatengingu vaxtabóta og barnabóta í tengslum við framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár, að því er fram kemur í yfirlýsingunni, sem afhent var ríkissáttasemjara og aðilum vinnumarkaðarins í gærkvöldi.
„Stærstum hluta þeirra tekna sem aflað er með almennu tryggingagjaldi, eða tæplega 70%, er varið til að mæta útgjöldum vegna lífeyris- og slysatrygginga. Útgjöld til þeirra málaflokka hafa stóraukist á síðustu árum,“ segir í yfirlýsingunni.