Staðnir að ólögmætum veiðum

Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-Sif.
Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-Sif. Árni Sæberg

Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-Sif kom að sex rússneskum og einum spænskum togara á úthafskarfaveiðisvæði á Reykjaneshrygg í dag. Samkvæmt reglum Norðaustur-Atlantshafsfiskveiði nefndarinnar (NEAFC) er ekki heimilt að hefja úthafskarfaveiðar fyrr en 10. maí nk.

Fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni að með greiningarbúnaði TF-Sifjar hafi greinilega sést að togararnir voru með veiðarfæri í sjó. Eitt skipanna var auk þess með slökkt á ferilvöktunarbúnaði sem skylt er að hafa í gangi.

Á fundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar í mars sl. náðist samkomulag um veiðar úthafskarfa á Reykjaneshrygg á milli Íslands, Grænlands, Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins en fulltrúar Rússlands mættu hins vegar ekki til fundarins. Samkomulagið sem gengið var frá í mars gildir til árins 2014.

Í tilkynningu Landhelgisgæslunnar segir að málið verði tekið til skoðunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert