Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt fjóra unga menn, sem eru 21 til 23 ára, í skilorðsbundið fangelsi fyrir að að taka alls um 7 milljónir króna út af greiðslukorti eins þeirra en fyrir mistök við stofnun reikningsins var hægt að yfirdraga reikninginn langt fram yfir heimild.
Reikningurinn var stofnaður árið 2007 í Sparisjóði Akraness og á tæplega mánaðar tímabili í nóvember og desember það ár var tekið fé út af reikningnum í fjölda skipta úr mörgum hraðbönkum.
Sparisjóðurinn kærði málið í ársbyrjun 2008 en ákæra var ekki gefin út fyrr en í október 2010. Segir í dómnum að þessi dráttur sé óútskýrður og brjóti í bága við meginreglu sakamálaréttarfars og stjórnarskrá.
Dómurinn segir, að við ákvörðun refsingar sé þess að gæta að mennirnir voru ungir að árum þegar brotin voru framin, sá yngsti aðeins 17 ára að aldri. Þá hafi þeir gengist við brotinu og hafi fallist á bótaskyldu og einn hafi gert samning við Arion banka um endurgreiðslu að hluta.
Þá hafi þeir allir leitað sér aðstoðar vegna neyslu vímuefna.