Vilja ljúka gerð þriggja ára kjarasamninga

Frá blaðamannafundinum.
Frá blaðamannafundinum. mbl.is/Júlíus

Framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins ákvað á fundi sínum í morgun að leita eftir því við samningsaðila að ljúka gerð kjarasamnings. SA segist vilja láta reyna á vilja ASÍ og landssambandanna að að ljúka gerð þriggja ára kjarasamnings með aðfararsamningi til 15. júní nk.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá framkvæmdastjórninni sem var birt á blaðamannafundi í Húsi atvinnulífsins.

Fram kom á fundinum að í tengslum við aðfararsamninginn að lagt hafi verið til að 50.000 kr. eingreiðsla komi til eins fljótt og mögulegt er.

Nú verður þetta kynnt viðsemjendum á sáttafundum. SA vonast til þess að fá jákvæð viðbrögð þeirra.

SA segist vonast til að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar felist að tryggð séu rekstrarskilyrði sjávarútvegsins. Það skipti öllu máli. 

Þá var lögð mikil áhersla á það að í stjórn samtakanna hefði ekki verið ágreiningur eða þrýstingur af hálfu LÍÚ sérstaklega um sjávarútvegsmál. Allir hafi verið sammála um þessar áherslur. 

Hún er svohljóðandi:

„Undanfarna mánuði hafa Samtök atvinnulífsins og ASÍ og landssambönd þess unnið að gerð þriggja ára kjarasamnings sem byggir á atvinnuleiðinni. Með henni er sköpuð ákveðin framtíðarsýn þar sem áherslan er lögð á hagvöxt, öruggt og tryggt starfsumhverfi fyrir allar atvinnugreinar, aukningu kaupmáttar og að draga úr atvinnuleysi.

Þegar viðræðum um kjarasamning var slegið á frest fyrir páska lá fyrir grunnur að kjarasamningi aðila en út af stóðu nokkur mál sem ræða þurfti nánar við ríkisstjórnina.

Í gærkvöldi bárust ný drög að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana. Að mati SA er þar komið að nokkru til móts við  sjónarmið samtakanna um auknar framkvæmdir í hagkerfinu auk þess sem sett er fram ákveðin bókun um meðferð frumvarps um sjávarútvegsmál.

Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að skapa fyrirtækjum landsins starfsöryggi og frið og hafa því ákveðið að láta reyna á vilja ASÍ og landssambandanna að ljúka gerð þriggja ára kjarasamnings með aðfararsamningi til 15. júní nk.

Þrátt fyrir slæma reynslu SA af yfirlýsingu ríkisstjórnar við gerð stöðugleikasáttmálans 2009 þá hefur framkvæmdastjórn SA á fundi sínum í morgun ákveðið að leita eftir því við samningsaðila að ljúka gerð kjarasamningsins. SA leggja mikla áherslu á að fylgja eftir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og munu vinna að því af fullum heilindum. Þetta er gert í þeirri fullvissu að atvinnuleiðin sé best til þess fallin að ná þjóðinni út úr kreppunni og skapa grundvöll að nýrri sókn í atvinnumálum, auknum kaupmætti og því að unnt verði að draga úr atvinnuleysinu.“

Aðilar vinnumarkaðarins í Karphúsinu í morgun.
Aðilar vinnumarkaðarins í Karphúsinu í morgun. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert