Fréttaskýring: Heldur fólki föstu í viðjum fátæktar

mbl.is/Heiddi

Fæstir gætu hugsað sér að eiga aðeins 21.777 krónur á mánuði eða 726 kr. á dag til ráðstöfunar fyrir mat, hreinlætisvörum, tómstundum og viðhaldi bíls og heimilis. Þetta er þó veruleiki sem fjöldi öryrkja býr við.

Um 60% öryrkja í Reykjavík, um 4.000 manns, eru með undir 200.000 krónum á mánuði í samanlagðar tekjur eftir skatt. Um helmingur þeirra, eða 32% öryrkja í Reykjavík, er með 160 þúsund krónur eða minna á mánuði eftir skatt. Þá eru meðtaldir allir bótaflokkar frá Tryggingastofnunar ríkisins, t.d. örorkulífeyrir, örorkuuppbót, tekjutrygging, heimilisuppbót og aðrar uppbætur TR og meðlag. Fari tekjurnar yfir 200.000 fyrir skatt fást ekki greiddar uppbætur.

Til samanburðar eru dæmigerð neysluviðmið einstaklings, samkvæmt útreiknuðum forsendum velferðarráðuneytisins, 291.932 krónur á mánuði. Það samræmist veruleika öryrkja illa. Ráðuneytið gerir einnig ráð fyrir að í neyð eigi fólk að geta dregið tímabundið úr neyslu og frestað ákveðnum útgjaldaliðum í allt að 9 mánuði. Þessi skammtímaviðmið hljóða upp á 201.132 kr. á mánuði fyrir einstakling á höfuðborgarsvæðinu. Tekjur 60% öryrkja í Reykjavík samræmast því ekki einu sinni þeim viðmiðum sem áætlað er að megi komast af með til skamms tíma á berstrípuðum lífstíl.

Spurning um að lifa með reisn

„Miðað við að þetta eru tekjur sem eiga að standa straum af öllum kostnaði sem fylgir sjúkdómum eða örorku, þá er þetta alltof lítið,“ segir Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands. Hún segir ljóst að stór hópur öryrkja sé í slæmri stöðu, en þó ekki svo stór að ekki sé hægt að bæta kjör þeirra. „Þetta er spurning um að lifa með reisn. Við búum í þannig þjóðfélagi að við ættum að geta gert fólki kleift að lifa mannsæmandi lífi, hafa nauðsynleg hjálpartæki og lyf – og hafa efni á því.“

Lilja segir að ekki sé nægilega mikið tillit tekið til þeirra útgjalda sem eru mörgum öryrkjum óhjákvæmileg vegna lyfja og nauðsynlegra hjálpartækja eins og t.d. heyrnartækja, en kostnaður við þau hefur aukist mjög frá hruni.

„Það sem gerist er að ef þú þarft mikið á lyfjum og hjálpartækjum að halda þá fer bara peningurinn í það og svo á fólk ekki fyrir mat. Þetta er ekki sanngjarnt því fólk þarf að lifa og borða, en það verður líka að fá heyrnartæki og lyfin sín sem gengur oft fyrir. Láglaunafólk getur auðvitað lent í svona aukakostnaði sem gerir því erfitt fyrir en það er oftast tímabundið. Fólk sem er langveikt eða með örorku býr hinsvegar við þennan kostnað, oft í mörg ár og jafnvel alla ævi og þessar aðstæður halda fólki í viðjum fátæktar.“

Lilja segir að stjórnvöld vanti heildarmynd af stöðu öryrkja. Nauðsynlegt sé að samræma bæturnar við neysluviðmiðin. Þá verði að taka þann aukakostnað sem óhjákvæmilega fylgi örorku með í reikninginn. „Það eru margir sem bjarga sér á því að eiga góða að, en það er ekki sjálfgefið að eiga bakland sem getur hjálpað þér og fólk á heldur ekki að þurfa að reiða sig á það.“

Kjör öryrkja

60%

öryrkja hafa innan við 200 þúsund krónur á mánuði í tekjur.

32%

öryrkja hafa innan við 160 þúsund

krónur á mánuði í tekjur.

291.932

krónur er dæmigert neysluviðmið

einstaklings samkvæmt útreiknuðum forsendum velferðarráðuneytisins.

112.032

krónur á mánuði eru dæmigerð

útgjöld fjögurra manna fjölskyldu, vegna matar og annarra dagvara til heimilishalds.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka