Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist vilja að næsti landsfundur flokksins fari fram næsta haust í samtali við Eyjuna.is en nokkrar deilur hafa staðið um það innan hans hvenær rétt sé að halda næsta fund. Kristján vildi hins vegar ekkert segja til um það hvort hann kynni að bjóða sig aftur fram sem formann Sjálfstæðisflokksins líkt og hann gerði árið 2009.
Nýverið samþykkti fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Rangárvallasýslu ályktun þar sem skorað var á formann Sjálfstæðisflokksins og miðstjórn flokksins að boða til landsfundar ekki seinna en í október í haust. Fleiri félög innan Sjálfstæðisflokksins hafa á árinu kallað eftir því að næsti landsfundur verði haldinn á þessu ári en hugmyndir hafa verið uppi um að jafnvel verði ekki af því fyrr en á næsta ári.
Síðasti reglulegi landsfundur Sjálfstæðisflokksins var haldinn fyrir alþingiskosningarnar 2009 en sumarið 2010 var haldinn aukalandsfundur til þess að kjósa nýjan varaformann í kjölfar þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér varaformennsku fyrr á árinu. Hins vegar fór þá meðal annars ekki fram miðstjórnarkjör eins og gert er ráð fyrir í skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins að fram fari á reglulegum landsfundi.