Mjög eitrað fíkniefni í umferð

Lögreglan varar við fíkniefnum sem nú kunna að vera á markaði hérlendis. Um er að ræða blandað metamfetamín sem inniheldur svokallað PMMA og er mjög eitrað en lögreglan í Borgarnesi fann samskonar efni við leit í bíl á dögunum.

Í tilkynningu segir að vitað sé um dauðsföll tengd þessu efni víða um heim og í Noregi hafi sex ungmenni látist af þessum völdum í vetur.

Þá segir að líkt og fram hafi komið í fjölmiðlum hafi ung kona látist í íbúð í Reykjavík fyrr í dag. Ekki sé hægt að útiloka að þetta kunni að tengjast.

Konan, sem er um tvítugt, fannst látin í íbúð í fjölbýlishúsi. Þegar lögreglan kom á vettvang voru þar fyrir fjórir aðrir einstaklingar og voru þeir allir handteknir í þágu rannsóknarinnar.

Segir lögregla að rannsókn málsins sé á frumstigi og dánarorsök liggi ekki fyrir en vitneskja sé um að fíkniefna var neytt í íbúðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka