Samtök atvinnulífsins eru harðlega gagnrýndi í ávarpi á heimasíðu Starfsgreinasambandsins í dag og þau sökuð um að reyna að kúga bæði verkalýðshreyfinguna og ríkisstjórnina með kröfum um að farið verði að vilja þeirra í sjávarútvegsmálum. Fullyrt er að með því brjóti SA gegn lögum og að ríkisstjórnin beri ekki að fara að kröfum þeirra samkvæmt lögum um kjaradeilur.
Starfsgreinasambandið segir að kjaraviðræðurnar hafi þannig snúist upp í deilu um það hverjir eigi að stjórna landinu.
„Þær kjaraviðræður sem fóru af stað í nóvember í fyrra með það markmið verkafólks og Samtaka atvinnulífsins að bæta kjörin með aukinni verðmætasköpun hafa snúist upp í deilu um það hver eigi að stjórna landinu. Vissulega höfum við í verkalýðshreyfingunni beitt okkar samtakamætti til að knýja á um félagsleg réttindi en það hvernig útvegsmenn og Samtök atvinnulífsins beita valdi sínu nú tekur út yfir allan þjófabálk.
Því verðum við að mæta af fyllstu hörku en við megum heldur ekki skella skollaeyrum við þeim aðvörunarorðum sem komu úr Seðlabankanum um daginn. Þess vegna flýtum við okkur hægt og viljum nú semja til eins árs og sjá svo til hvort hagvaxtarleiðin verði fær þegar Samtök atvinnulífsins hafa fangað skynsemi sína og áttað sig á því að það er réttur ríkisstjórnarinnar að stjórna landinu,“ segir á heimasíðu SGS.
Þá er ríkisstjórnin einnig gagnrýnd og hún minnt á að því fylgi ábyrgð að stjórna.
„Sú ábyrgð felst fyrst og fremst í því að hafa forystu fyrir umræðu og ráðstöfunum sem leiða til hagvaxtar og stöðugleika og geta um leið komið í veg fyrir að kjarasamningar til lengri eða skemmri tíma leiði til aukinnar verðbólgu. Í þeirri umræðu vill verkalýðshreyfingin axla sína ábyrgð af festu og með afli ef nauðsyn krefur og við látum ekki hvað sem er yfir okkur ganga,“ segir á síðunni.