Eignirnar kvitti fyrir Icesave

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Eggert

„Við teljum allt benda til þess að þorri krafnanna eigi að fást greiddur úr þrotabúinu,“ segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, en stjórnvöld svara á morgun áminningarbréfi Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna Icesave-deilunnar.

Svarfresturinn rennur út á morgun og leggur Árni Páll áherslu á að vandað verði til verka.

„Við leggjum áherslu á að halda til haga öllum atriðum sem máli skipta um efnislega niðurstöðu málsins og gagnast málstað Íslands. Við höfum lagt mikla vinnu í að gera þetta svar eins vel úr garði og mögulegt er og leitað um það víðtækrar samstöðu. Ég fer á fund utanríkismálanefndar á eftir og mun fara endanlega yfir svarið þar. Ég er þess fullviss að þetta svar sé eins vel úr garði gert og nokkur kostur er.“

Forsendur til að ljúka málinu


– Ef svarbréf stjórnvalda dugar ekki til að breyta áliti ESA er næsta skref ESA í málsmeðferðinni þá að senda rökstutt álit til íslenskra stjórnvalda?

„Jú. Það væri það. Við teljum að við setjum fram nægjanlega skýr rök til þess að séu efnislegar forsendur fyrir eftirlitsstofnunina að loka málinu á þessum grundvelli. Síðan verður hún að meta stöðuna og hvað hún kýs að gera í framhaldinu.“

Þorri krafna verði greiddur úr þrotabúinu

– Felst í orðalagi svarbréfsins að þið fallist á að málinu verði vísað til dómstóla?

„Það er ekki í okkar höndum. Það er eftirlitsstofnunarinnar að meta það. Við teljum að við setjum fram nægjanlega sterk rök fyrir því að ekki sé um að ræða skyldu af Íslands hendi. Við bendum á að innheimtur úr búinu verði með þeim hætti að ekki séu líkur á öðru en að úr því fáist þorri krafna greiddur.“

– Þannig að það er á engan hátt fallist á að málinu skuli vísað til EFTA-dómstólsins?

„Nei. Það er einfaldlega þeirra að gera það. Við teljum enga sérstaka ástæðu til þess.“

– Eruð þið þá orðin vongóð um að heimturnar úr búinu dugi því fyrir Icesave-kröfunni og að það komi aldrei til kasta dómstóla?

„Við teljum allt benda til þess að þorri krafnanna eigi að fást greiddur úr þrotabúinu og að sú staðreynd eigi að geta gefið eftirlitsstofnuninni möguleika á að loka málinu. Hvað hún svo gerir verður hún að útskýra og svara fyrir. En við teljum að það sé alveg efnisrök fyrir því,“ segir Árni Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka