Ekki að ólöglegum veiðum

Varðskipið Týr á siglingu.
Varðskipið Týr á siglingu. Mynd/Landhelgisgæslan

Við athugun kom í ljós að erlendir togarar sem Landhelgisgæslan hafði afskipti af á Reykjaneshrygg fyrir tveimur dögum, og taldir voru þar að úthafskarfaveiðum, eru ekki að stunda ólöglegar veiðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Um var að ræða samtals sjö skip, eitt frá Spáni og sex frá Rússlandi. Við athugun á afla spænska togarans kom í ljós að hann var við veiðar á langhala en ekki úthafskarfa. Veiðum á langhala er ekki stjórnað með beinum hætti og eru heimilar skipum frá ríkjum með veiðireynslu í tegundinni fari afli ekki yfir 65% af meðalafla undanfarinna ára. Spánverjar hafa tilskylda veiðireynslu í þeim efnum.

Rússnesku togararnir voru hins vegar að úthafskarfaveiðum en þar sem Rússar eru ekki aðilar að Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndinni (NEAFC), sem samþykkt hefur að karfaveiðar hefjist ekki fyrr en 10. maí, eru rússnesk skip ekki bundin af ákvörðunum hennar.

Landhelgisgæslan leggur áherslu á að öll skipin séu að veiðum á samningssvæði NEAFC og utan íslenskrar fiskveiðilögsögu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert