„Í stað þess að setja þak á hámarkslaun, eða gólf undir lægstu laun, ættum við að bindast fastmælum um að hæstu laun verði aldrei hærri en þreföld lægstu laun. Kjarabætur eins hefðu þannig áhrif á kjarabætur annars,“ sagði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, í erindi sem hann flutti í Lögreglumessu í Neskirkju í morgun.
Ögmundur sagði að verkefni þjóðarinnar allrar, stjórnmálamanna, stéttarfélaga og atvinnurekenda, væri sanngjörn og réttlát skipting gæðanna, bæði launakjara og annarra lífsgæða.
„Verkefni kjarabaráttunnar hefur í mínum huga aldrei snúist um það eitt að hækka laun heldur um jafnvægi; jafnvægið í kjörum, jafnvægið almennt í samfélaginu, inni á vinnustaðnum og utan hans; að jafnvægi og jafnræði ríki með þeim sem hafa völd og fjármagn á hendi annars vegar og hins vegar hinna, sem hvorugt hafa. Hvorki fjármagnið né valdið. Þannig fá allir haldið mannlegri reisn,“ sagði Ögmundur.
Hann sagði að mannréttindi færu ekki eftir ríkidæmi heldur væru þau mæld á kvarða réttlætis. Þannig gæti fátækt samfélag hæglega verið réttlátt samfélag.