„Verði kröfur LÍÚ ekki lagðar til hliðar, þá er friðurinn úti,“ sagði Signý Jóhannesdóttir, varaforseti ASÍ, í ræðu sem hún flutti á Austurvelli í tilefni Verkalýðsdagsins. Þar fjallaði hún um stöðuna í kjaradeilunni sem hefur ekki skilað neinum árangri.
„Íslenskt launafólk hefur þreytt möglunarlaust þorrann og góuna. En þolinmæði eru samt takmörk sett. Við segjum stopp, hingað og ekki lengra. Við krefjumst meiri vinnu og betri kjara,“ sagði Signý.
„Það urðu tímamót föstudaginn 15. apríl þegar samtök atvinnulífsins sviku gefin loforð. Nú neyðumst við til að grípa til vopna. Hinir hvítu fánar friðarins munu felldir og þeir rauðu dregnir að húni. Atvinnurekendur verða að koma til sáttar með verulegar lagfæringar á launakjörum,“ sagði hún ennfremur.
Signý tók jafnframt fram að nú væru tímamót í kjarabaráttunni í íslensku samfélagi.
„Nú geisar undarlegt og jafnframt mjög hatrammt stríð um völdin í landinu. Stríð um það hvaða gildi eiga að vera ráðandi og um það hverjir eigi að bera ábyrgð á þeim kollsteypum sem við höfum ratað í. Kjarasamningar á almennum og opinberum markaði hafa verið lausir í fimm mánuði. Um 160.000 launamenn hafa ekki fengið kjarabætur. Öryrkjar, atvinnulausir og eldri borgarar hafa ekki fengið kjarabætur þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar ráðherra velferðarmála um hversu skammarlega lágar þessar bætur séu.“