Skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ráðinu þess efnis að krefja fjármálaráðherra svara við því hvað verða mun um þær byggingar og lóðir sem losna þegar Landspítalinn er að fullu byggður.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Júlíusi Vífli Ingvarssyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Fram kemur að uppbygging Landspítala Háskólasjúkrahúss við
Hringbraut gangi samkvæmt áætlun og nýtt deiliskipulag verði kynnt
opinberlega innan skamms. Að framkvæmdum loknum muni starfsemi sú sem nú sé í Borgarsptítalanum flytja í nýbyggingar spítalans og síðar flytji einnig starfsemi Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum.
„Samfara framkvæmdum við nýbyggingar Landspítalans við Hringbraut ber að vinna að breyttri notkun þeirra húsa sem þá missa tilgang sinn og skipuleggja þau svæði sem næst þeim liggja. Mér finnst sorglegt og eiginlega til skammar að sjá hvernig ríkið yfirgefur sjúkrahús eins og Vífilsstaðaspítala og starfsmannahús sem eru á Vífilsstöðum. Þetta er orðið draugahverfi sem mun óhjákvæmilega drabbast niður enda ekki mikill áhugi á að halda við húsum sem ekki eru í notkun. Þau munu augljóslega mæta afgangi í viðhaldi. Sennilega er yfirlæknissbústaðurinn á staðnum hreinlega ónýtur. Svona vill maður ekki sjá endurtaka sig í Fossvogi eða að Keldum,“ segir Júlíus Vífill í tilkynningu.
Þá segir að í tillögunni komi fram að skipulagsráð telji að vinna við mótun skipulags þessara tveggja reita verði að hefjast sem fyrst enda sé gert ráð fyrir að nýbyggingar LSH við Hringbraut rísi hratt og að starfsemi sú sem nú fari fram í ofangreindum stofnunum flytjist þangað. Ákvarða þurfi nýtingu lóða og notkun fasteigna sem á lóðunum standi, sérstaklega þó Borgarspítalans.
Einnig segir að skipulagsráð lýsi sig reiðubúið til að skipa sérfræðinga af Skipulagssviði í teymi til að vinna með eignasviði LSH að því að rýna verkefnið og leggja síðan fyrir Skipulagsráð tillögur að skipulagsforsendum sem geti falið í sér breytta notkun og hugsanlega uppbyggingu.