Rannsókn lögreglunnar á andláti ungrar konu er viðamikil. Lögreglan hefur yfirheyrt á annan tug einstaklinga í tengslum við rannsóknina. Fjórir voru handteknir á laugardag vegna málsins en þeim var öllum sleppt í gær.
Þá hefur lögreglan framkvæmt nokkrar húsleitir á höfuðborgarsvæðinu.
Kona um tvítugt fannst látin í íbúð í fjölbýlishúsi í Reykjavík um hádegisbil í á laugardag. Þegar lögreglan kom á vettvang voru þar fyrir fjórir aðrir einstaklingar og voru þeir allir handteknir í þágu rannsóknarinnar.
Ekki leikur grunur á að fólkið hafi valdið dauða konunnar.
Konan er sögð hafa látist af völdum fíkniefnaneyslu. Ekki hefur verið útilokað hún hafi látist af völdum þess að hafa neytt blandaðs metamfetamíns, sem innihaldi svokallað PMMA.
Um helgina sendi lögreglan frá sér viðvörun vegna efnanna, en hún segir að efnið sé mjög eitrað. Bent var á að lögreglan í Borgarnesi hafi fundið samskonar efni við leit í bíl á dögunum.
Vitað sé um dauðsföll tengd þessu efni víða um heim og í Noregi létust sex ungmenni af þessum völdum í vetur.
Björgvin Björgvinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í samtali við mbl.is að rannsókn málsins sé umfangsmikil og verið sé að afla frekari upplýsinga. Rætt hafi verið við á annan tug einstaklinga í tengslum við málið. Fjölmargir lögreglumenn komi að rannsókninni.
Lögreglan reyni nú að rekja slóð efnanna sem konan neytti, þ.e. hvaðan það komi. Björgvin segist ekki hafa upplýsingar um útbreiðslu efnanna á landinu, en það sé á meðal þess sem verið sé að skoða.
Hann segir að niðurstöður krufningar muni leiða það í ljós hvort konan hafi neytt efnanna sem um ræði. Hann bendir á að það muni líða nokkrar vikur þar til lokaniðurstaða lyfjarannsóknar liggur fyrir.