Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður hefur ákveðið að fara í mál við Björn Val Gíslason alþingismann vegna ummæla sem Björn Valur lét falla á bloggsíðu sinni.
„Björn Valur var að ásaka mig að ófyrirsynju um glæpsamlegt athæfi. Honum var boðið að draga þau ummæli til baka. Hann gerði það ekki og þá er ekkert annað að gera en að fara dómstólaleiðina,“ sagði Guðlaugur Þór.
Björn Valur sagði á bloggsíðu sinni að styrkir sem Guðlaugur Þór fékk til stjórnmálastarfa sinna væru mútur. „Ef það er rétt hjá Birni Val að þetta sé ólöglegt að þiggja framlög til stjórnmálabaráttu frá fyrirtækjum og einstaklingum þá á það ekki bara við mig heldur alla aðra stjórnmálamenn sem það hafa gert á síðustu árum og áratugum og það sama á við stjórnmálaöfl og flokka og þar með talið VG,“ sagði Guðlaugur Þór.