„Það er algjörlega óumdeilt að Bretar og Hollendingar brutu gegn ákvæðum tilskipunar um slit á fjármálafyrirtækjum með einhliða aðgerðum sínum,“ sagði Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra á blaðamannafundi nú fyrir stundu. Þar kynnti hann innihald svarbréfs stjórnvalda til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna tilkynningar stofnunarinnar frá því í maí í fyrra.
Íslensk stjórnvöld hafi tryggt innstæður í bönkum eftir því sem aðstæður leyfðu. Því er mótmælt að einhvers konar árangursskylda hvíli á íslenska ríkinu vegna innstæðutryggingakerfisins hér á landi.
„Við mótmælum því að brotið hafi verið gegn tilskipuninni og gerum þá kröfu að málið verði látið niður falla,“ sagði Árni Páll á fundinum.
Stofnunin hafði ekkert aðhafst síðan í maí í fyrra þar sem útlit var fyrir að samningar næðust milli Íslendinga, Breta og Hollendinga. Eftir að ríkisábyrgð á endurgreiðslum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu á dögunum, og forsendur fyrir samningum því úr sögunni, var ljóst að staðan var gjörbreytt og því nauðsynlegt að fara þessa leið.
Fjöldi fólks kom að vinnunni við svarbréfið, úr báðum „fylkingum,“ þ.e.a.s. einstaklingar sem töluðu fyrir báðum sjónarmiðum í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
„Við höfum lagt á það áherslu að byggja upp eins mikla samstöðu um þetta mál og mögulegt er, og höfum leitað eftir aðkomu bæði sérfróðra aðila og áhugafólks. Mjög margir hafa sökkt sér ofan í málið og eytt miklum tíma í að kynna sér það. Við höfum haft mikið gagn af því að ræða við þá hópa sem að málinu hafa komið, sagði Árni á fundinum.
„Það er almennt viðurkennt að lærdómurinn af fjármálakreppunni er að byggja upp traustara alþjóðlegt fjármálakerfi. Það sem gerðist almennt árið 2008 var að ríki gripu til einhliða aðgerða og það var ekki einsdæmi á Íslandi,“ sagði Árni og vísaði þar til þeirra aðgerða sem gripið var til til þess að bjarga því sem bjargað varð í íslensku fjármálakerfi. Bretar og Hollendingar hafi til að mynda ábyrgst allar innstæður í sínum bönkum