Íslendingar brugðust ekki skyldum sínum

Skrifstofur EFTA í Brussel.
Skrifstofur EFTA í Brussel. mbl.is

Íslensk stjórnvöld sendu í dag Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ítarlegt svar við tilkynningu stofnunarinnar frá því 26. maí á síðasta ári. Ráðist var í gerð svarbréfsins eftir að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu um ríkisábyrgð á endurgreiðslum til Breta og Hollendinga vegna innlána á Icesave- reikningum Landsbankans í löndunum tveimur.

Í svarinu er því hafnað að Íslendingar hafi brugðist þeirri skyldu sinni að innleiða og framfylgja tilskipun um innstæðutryggingar.  Í bréfi ESA frá því fyrir ári síðan segir að Ísland beri ábyrgð á lágmarkstryggingu upp á 20 þúsund evrum. Þá hafi Ísland mismunað kröfuhöfum.

Leitast er við að sýna fram á það að auk innleiðingarinnar hvíli ekki árangursskylda á Íslandi, þ.e.a.s. nóg sé að standa rétt að innleiðingunni, en að ekki þurfi að tryggja það að tryggingarsjóðurinn standi undir skuldbindingum. Verði niðurstaðan hinsvegar sú að árangursskylda sé talin hvíla á Íslendingum beri að líta til þess að senn hefjist greiðslur úr búi Landsbankans, og þá sé skilyrðinu um „árangur“ fullnægt.

Röksemd stjórnvalda er í grófum dráttum í átta liðum.

1.       Stjórnvöld innleiddu tilskipunina að fullu með setningu laga um Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta árið 1999. Fyrrkomulagið hér á landi sé svipað því sem gerist í mörgum löndum Evrópska efnahagssvæðisins og aldrei hafi verið gerð athugasemd við það.

2.       Stjórnvölda hafna því að á sér hvíli það sem kalla má árangursskyldu (e. Obligation of result). Það fæli í sér að ekki sé nóg að setja á fót innstæðutryggingakerfi, heldur þurfi að ábyrgjast greiðslur komi til falls innlánsstofnunar. Það er sjónarmið stjórnvalda að þessi túlkun leiddi til þess að ríkisábyrgð væri á öllum innlánsreikningum í öllum innlánsstofnun. Þetta stríðir meðal annars gegn þeim samkeppnissjónarmiðum sem EES byggir meðal annars á. Mörg ríki Evrópu eru engan veginn í stakk búin til að veita standa undir slíkri ábyrgð.

3.       Hugtakið árangursskylda er illa skilgreint í Evrópurétti. Það dómafordæmi sem vísað hefur verið til á ekki við í þessu tiltekna máli. Til þes að á árangursskyldi reyni þyrfti að sýna fram á að stjórnvöld hafi ekki gert það sem þeim bar til þess að stuðla að lágmarkstryggingu. Fram á það hefur ekki verið sýnt í þessu máli.

4.       Stjónrvöld tryggðu, upp að því marki sem mögulegt var, innlán í íslenskum bönkum með því að gera kröfur þeirra að forgangskröfum þegar ljóst var að fall bankanna var óumflýjanlegt. Með því var bætt upp fyrir galla innstæðutryggingakerfisins og í mörgum tilfellum voru endurgreiðslur mun meiri en lágmarkstryggingin kvað á um. Ef einhver árangursskylda er fyrir hendi hefur henni verið framfylgt með þessum aðgerðum.

5.       Verði úrskurðað sem svo að íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn tilskipuninni er því til að svara að brotið sé réttmætt í ljósi þess að ekkert innstæðutryggingarkerfi sem tilskipunin nær til hefði getið staðið af sér þau efnahagslegu áföll sem Íslendingar urðu fyrir haustið 2008.

6.       Verði úrskuðað sem svo að íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn tilskipuninni er því til að svara að brotið sé réttmætt í ljósi þeirra einhliða aðgerða sem Bretar og Hollendingar gripu til gagnvart Landsbankanum, íslenska ríkinu og öðrum íslenskum hagsmunaaðilum. Þessar aðgerðir komu í veg fyrir að stjórnvöld á Íslandi gætu undið ofan af og endurskipulagt Landsbankann til að tryggja greiðslur til innstæðueigenda. Til samanburðar gripu Þjóðverjar ekki til neinna sambærilegra aðgerðar gagnvart Kaupþingi og greiðslur til innstæðueigenda á Edge-reikningum Kaupþings í Þýskalandi fengu skjóta úrlausn sinna mála.

7.       Íslensk stjórnvöld hafna því að innstæðueigendum hafi verið mismunað á grundvelli þjóðernis.  Ef um mismunun hafi verið að ræða hafi hún verið á grundvelli staðsetningar. Þannig hafi 18% innstæðueigenda á Íslandi verið erlendir ríkisborgarar. Verði niðurstaðan sú að mismunum hafi átt sér stað halda stjórnvöld því fram að hún hafi verið réttmæt.

8.       Að lokum er lögð áhersla á að litið sé til force majeure eðlis þeirra aðstæðna sem hér komu upp og getuleysi stjórnvalda til þess að sinna þeirri skyldu sem ESA vill meina að hvíli á íslenska ríkinu í ljósi tilskipunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert