„Það sem menn hafa sagt verður rannsakað þegar Icesave-málið verður rannsakað. Menn þurfa að gera skil á því sem þeir hafa sagt. Afstaða stjórnvalda og margra fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna var á þann veg að það væri mjög varasamt að fella nýja Icesave-samninginn.“
Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknar, spurður um þau ummæli Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, í viðtali við mbl.is í gær, að stjórnvöld teldu „enga sérstaka ástæðu“ fyrir því að Icesave-deilan kæmi til kasta dómstóla.
Frestur stjórnvalda til að skila svarbréfi til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, rennur út í dag og segir Gunnar Bragi utanríkismálanefnd leggja fram 32 síðna greinargerð. „Nú hefur utanríkismálanefnd sameinast um þau rök að ekki sé ástæða að fara með málið fyrir dómstóla og að það séu engar líkur á því,“ segir Gunnar Bragi.