Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, flutti opnunarávarp á tveggja daga fundi félagsmálaráðherra aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem hófst í París í dag. Á fundinum er rætt um brýnustu viðfangsefni þjóða á sviði velferðarmála við endurreisn og uppbyggingu í kjölfar efnahagskreppunnar samkvæmt fréttatilkynningu frá velferðarráðuneytinu. Fjallaði Guðbjartur um reynslu Íslendinga af bankahruninu og hvernig tekist hefði verið á við félagslegar afleiðingar þess.
„Unnið hefur verið að undirbúningi fundarins undanfarin tvö ár. Markmið hans er að skapa vettvang fyrir félagsmálaráðherra aðildarríkjanna til að eiga skoðanaskipti um áhrifin af banka- og fjármálakreppunni á framvindu félags- og velferðarmála. Einnig að leggja línur um brýnustu viðfangsefni þjóðanna á þessum sviðum við endurreisn og uppbyggingu í kjölfar kreppunnar. Fyrst og fremst er fjallað um fjölskyldustefnu og velferð barna, umönnunarstefnu, jafnrétti kynjanna, lífeyriskerfi og starfslok á vinnumarkaði, vinnumál, félagslega húsnæðisstefnu, samstöðu kynslóðanna. Velferðarmálin í víðum skilningi eru þannig til umræðu,“ segir í tilkynningunni.