Ein af þeim hugmyndum sem til skoðunar eru hjá Orkuveitu Reykjavíkur með það fyrir augum að hagræða í rekstri fyrirtækisins er að í stað þess að starfsmenn þess gangi í öll hús til þess að lesa af mælum sjái viðskiptavinirnir um það sjálfir.
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, ítrekað þó í samtali við mbl.is að aðeins sé um að ræða hugmyndir enn sem komið er sem áður hafi komið upp. Þær séu þó ræddar af meiri alvöru nú.
Aðspurður hvort ekki sé hætta á svindli í einhverjum tilfellum ef viðskiptavinir OR sæju sjálfir um álestur segir Eiríkur ekki miklar áhyggjur af því. Ef hugmyndinni yrði hrint í framkvæmd yrði áfram fylgst með því ef óeðlileg frávik yrðu í notkun og málið kannað þætti ástæða til. Svindl hefði þannig einfaldlega í för með sér óþægilega bakreikninga.
Eiríkur bendir á að víða í nágrannalöndum Íslands þekkist það að viðskiptavinir sjái sjálfir um álestur eins og til að mynda í Danmörku.