Hressilegur hvítabjörn

Mynd úr myndasafni.
Mynd úr myndasafni. Reuters

Ísbjörninn, sem sást í fjörunni í Hælavík á Hornströndum í morgun var hinn hressasti. Þetta hafði Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Ísafirði, eftir skipverjum bátsins sem sáu björninn.

„Skipverjarnir sögðu að þetta væri hinn hressasti björn, hann hljóp eftir fjörunni og þegar hann sá bátinn, þá hljóp hann upp á hæð og hvarf inn í þokuna,“ sagði Önundur.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni óð björninn í sjónum í átt að bátnum, en þegar hann átti örfáa metra eftir snerist honum hugur og hljóp í land. Talið er að um ungan björn sé að ræða.

Von er á þyrlu Landhelgisgæslunnar á staðinn upp úr klukkan tólf á hádegi. Enn er mikil þoka á svæðinu og beðið verður með aðgerðir, uns henni léttir.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert