Stefnir í bílaskort í landinu

Bifreiðar í Sundahöfn. Nýir bílar hækkuðu mikið í verði eftir …
Bifreiðar í Sundahöfn. Nýir bílar hækkuðu mikið í verði eftir gengishrun krónunnar. mbl.is/Ómar

Ef fram heldur sem horfir stefnir í skort á ódýrum bílum í landinu. Þetta kemur fram í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag, mánudag, en vegna mikillar verðhækkunar á nýjum bifreiðum er nú slegist um gamlar bifreiðar. Hafa þær því hækkað í verði í sumum tilfellum.

Rætt er við Pálma Kristmundsson, bílasala hjá bíll.is, í blaðinu í dag en hann segir bíla á verðbilinu frá 300.000 til 500.000 krónur seljast eins og heitar lummur.

Þá fullyrti bílasali sem ekki vildi láta nafns síns getið að brask með ódýra bíla væri hafið á ný eins og sjá mætti af auglýsingum eftir bílum í lægsta verðflokki sem þarfnist viðhalds. Laghentir taki við bílum sem þarfnist viðgerðar og geri gangfæra í bílskúrum.

Veikari króna þýðir dýrari bíla

Álögur ríkisins leggjast ofan á hækkandi innkaupsverð á nýjum bifreiðum vegna gengishruns krónunnar.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir ofurtolla ríkisins á nýjar bifreiðar vega þungt í þessu sambandi. Miklar álögur og óhagstæð gengisþróun valdi því að bílasalar ræði sín á milli um að ástandið á markaðnum hafi ekki verið svo slæmt m.t.t. kaupmáttar í bílum síðan árið 1960.

Spurður um þátt ríkisins bendir Steingrímur J. Sigfússon á að dregið hafi verið úr álögum á sparneytin ökutæki. Því sé hagkvæmara að kaupa sparneytinn fjölskyldubíl en það var fyrir þá breytingu á vörugjöldum að miða skuli við útblástur bifreiða.

Runólfur Ólafsson, formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, tekur undir með Özuri að álögur ríkisins á bifreiðar séu of háar. Telur Runólfur að álögur á bifreiðar hafi í raun aukist eftir gengishrunið, enda hafi innkaupsverðið hækkað og skattar í krónum talið þar með.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert