Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, um að veita 41,9 milljónum króna til brýnna framkvæmda nú í vor og sumar á friðlýstum svæðum sem jafnframt eru vinsælir viðkomustaðir ferðamanna.
Verður unnið að verkefnum við Gullfoss, Geysi í Haukadal, friðlandið í Dyrhólaey, Friðland að Fjallabaki, náttúruvættið á Hveravöllum og náttúruvættið í Surtarbrandsgili.
Ráðuneytið segist leggja höfuðáherslu á aðgerðir sem tryggja verndargildi og öryggi, en helstu verkefni sem unnið verður að á næstu mánuðum eru göngustígar, stikun gönguleiða, útsýnispallar, öryggisgirðingar, merkingar, fræðsluskilti, viðvörunarskilti, gróðurbætur og eftirlit.
Framkvæmdirnar séu brýnni en ella vegna þess að spár geri ráð fyrir metfjölda ferðamanna á þessu ári, sem auki álag á viðkomandi svæði.