Komið er á endasprett í byggingu Hörpu við hafnarbakkann. Það fer ekki á milli mála þegar litið er inn fyrir dyr tónlistarhússins. Iðnaðarmenn keppa við tímann sem aldrei fyrr og reyna að leggja lokahönd á verkið.
Steypan verður vart þornuð þegar fyrstu tónleikagestir Hörpu munu ganga inn í nýja húsið á miðvikudagskvöld og hlýða á Sinfóníuhljómsveitina undir stjórn Vladimirs Ashkenazys.
Steinunn Birna Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri Hörpu, segir að ekkert muni vanta upp á það að upplifunin geti orðið fullkomin fyrir fyrstu tónleikagestina á morgun, þrátt fyrir að húsið verði ekki fullkomlega klárað.