Grímulaus tilhneiging til ESB-aðlögunar

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/ÞÖK

„Einbeittur vilji stjórnvalda um Evrópusambandsaðild er stöðugt að koma í ljós. Vinstri grænir bera kápuna á báðum öxlum. Látast vera á móti ESB aðild, en vinna hins vegar í nánu samstarfi við Samfylkinguna að því að tryggja ESB aðildina,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á heimasíðu sinni í kvöld.

Hann gerir síðan að umfjöllunarefni sínu fund sameiginlegrar þingmannanefndar Evrópuþingsins og Alþingis hér á landi í tengslum við umsóknina um aðild að ESB. Þar stóð til að samþykkja ályktun en hætt var við það á síðustu stundu vegna þess að ekki var samstaða innan nefndarinnar um að það yrði gert. Kom meðal annars fram hörð gagnrýni á drög að ályktun sem lágu fyrir fundinum.

„Í þessum drögum er Ísland hvatt til að undirbúa aðild að stefnu ESB í landbúnaðar og byggðamálum og hefja vinnu við að setja á laggirnar nauðsynlegar stofnanir sem þurfa að vera til reiðu þegar til aðildar kemur, til þess að geta hrint stefnumálum á þessum sviðum í framkvæmd og njóta þess stuðnings sem ESB aðildin hefur í för með sér,“ segir Einar.

Þetta þýði á mæltu máli að setja eigi á stofn Greiðslustofu, eða stofnun landbúnaðarins, sem sé „skilmálalaust partur af aðlöguninni inn í Evrópusambandið og hefur verið sem eitur í beinum ESB andstæðinga í VG.“

Einar segir ljóst að ályktunardrögin séu á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna til jafns við Evrópuþingmennina. „Í þeim birtist okkur grímulaus tilhneiging stjórnarflokkanna til ESB aðlögunar. Ályktunardrögin eru óræk heimild um það,“ segir Einar á heimasíðu sinni.

Heimasíða Einars K. Guðfinnssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert