Herjólfur siglir tvær ferðir til Landeyjahafnar á morgun. Að sögn upplýsingafulltrúa Eimskips verður siglt inn í höfnina á flóði og þar með verði dýpið í hafnarmynninu nægjanlegt fyrir skipið. Þetta er í fyrsta skipti frá því um miðjan janúar sem Herjólfur siglir til Landeyjahafnar.
Fyrsta ferð Herjólfs frá Vestmannaeyjum er klukkan 7:30 og siglt verður til Þorlákshafnar og aftur til Vestmannaeyja frá Þorlákshöfn klukkan 11:15.
Önnur ferð Herjólfs verður farin frá Vestmannaeyjum klukkan 16:00 í Landeyjahöfn og aftur til Vestmannaeyja klukkan 17:40
Þriðja og síðasta ferð Herjólfs fer frá Vestmannaeyjum klukkan 19:00 í Landeyjahöfn og aftur til Vestmannaeyja klukkan 20:15.
Í tilkynningu frá Eimskipi um klukkan 18 í dag kom fram að Herjólfur myndi ekki sigla til Landeyjahafnar þar sem hún væri enn of grunn. Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, sagði í samtali við Morgunblaðið að útlit hefði verið fyrir að höfnin yrði lokuð á morgun. Vegna strauma og vinds tækist ekki að dýpka hana. Eimskip hefði hins vegar ákveðið að skoða málin betur og leggjast yfir flóðatöflu.
Samkvæmt sjávarfallaspá Siglingastofnunar er háflóð um klukkan 19 í Vestmannaeyjum og væntanlega á svipuðum tíma við Landeyjahöfn.
Ólafur sagði að með því að sigla nálægt háflóði væri reiknað með að dýpið í höfninni yrði nægjanlegt.
Í tilkynningu frá Eimskip eru farþegar beðnir um að mæta ekki síðar en hálftíma fyrir brottför.
Mikið sé búið að bóka í þessar ferðir nú þegar og eru farþegar beðnir um að tryggja sér farmiða áður en lagt er af stað til Landeyjahafnar. Akstur frá Reykjavík í Landeyjahöfn tekur um tvær klukkustundir við bestu skilyrði.
Áætlun Herjólfs fyrir fimmtudaginn 5. maí verður gefin út á morgun, miðvikudaginn 4. maí.