Hvítabirnan sem var felld í Rekavík bak Höfn í gær skildi eftir sig spor í sköflum á þessum afskekktasta kjálka landsins. Sporin afmást fljótt þegar skaflana leysir með hækkandi sól. Mikið líf er nú í hafinu úti af norðanverðum Vestfjörðum.
Halldór Sveinbjörnsson, ljósmyndari frá Ísafirði, fór norður á Hornstrandir í gær til þess að freista þess að ná myndum af hvítabirninum sem þar sást í gærmorgun.
Hann fór ásamt þeim Erni Torfasyni og Hákoni Hermannssyni á harðbotna slöngubátnum Guðbjörgu frá Ísafirði um ellefuleytið í gærmorgun. Rúmlega 40 sjómílna (74 km) sigling er frá Ísafirði norður í Hornvík og tók siglingin um tvo klukkutíma.
Sjóveður var þokkalegt á leiðinni nema í Straumnesröstinni og Kögurröstinni. Hins vegar hellirigndi á þá á leiðinni norður.
Sem kunnugt notuðu lögreglumenn og skyttur þyrlu Landhelgisgæslunnar til að leita að hvítabirninum. Þegar þyrlan kom á vettvang var bangsi stokkinn úr Hælavík yfir Rekavíkurfjallið og niður í Rekavík bak Höfn í Hornvík þar sem hann var felldur klukkan 14.21 í gær.
Halldór og félagar hans komu í Hornvíkina í sama mund og þyrlan var að búa sig til brottfarar með hræið af bjarndýrinu innanborðs. Þeir rétt misstu því af að sjá dýrið þar sem það var fellt. Þeir sáu þó för bjarndýrsins í snjósköflum.
Á einum stað mátti greinilega sjá hvernig bangsi hafði rennt sér á kviðnum með alla anga úti, eins og lítið barna að leika sér, niður brattan skafl í fjöruna og prílað svo aftur upp skaflinn. Halldór sagði ljóst að dýrið hafi verið mjög sprækt og farið hratt yfir.
Halldór er í hópi ötulustu kajakræðara landsins og þekkir sig vel við Hornstrandir allt frá árinu 1979. Hann sagði að mikið líf hafi verið á þessum slóðum í gær.
„Ég hef aldrei fyrr séð svona mikið af fugli þarna á þessum árstíma. Mér kom þó mest á óvart hvað þarna var rosalega mikið af hval. Ég hef aldrei á ævinni séð jafn mikið af hnúfubak og í gær.
Ég er ekki frá því að þarna hafi verið hundrað hnúfubakar. Þeir voru í Aðalvíkinni, út af Aðalvík og Ritnum og í mynni Ísafjarðardjúps alveg inn undir Jökulfirði og að Bolungarvík,“ sagði Halldór.
„Það voru blástrar og sporðaköst út um allt. Þarna var líka dálítið af hnísu og svolítið af höfrungi. En hundrað hnúfubakar eru ótrúleg sjón. Hingað til hef ég stundum séð tvo!“