Hræ lukkudýrsins í fréttunum

Ísbjörninn er lukkudýr KFÍ.
Ísbjörninn er lukkudýr KFÍ.

Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar, KFI, segist harma ísbjarnarvígið á Hornströndum í gær og íhugar að skipta um lukkudýr félagsins, en merki félagsins er ísbjörn á ísjaka.

„Enn einn ísbjörninn hefur verið felldur. Það fer að verða fullreynt með komur ísbjarna til landsins. Sumir stuðningsmanna KFÍ eru farnir að kalla eftir aðgerðum, þeim leiðist að sjá hræ blóði drifins lukkudýrs félagsins í kvöldfréttunum. Segja þeir að annað hvort verði skapaðar viðunandi aðstæður svo taka megi við þessum dýrum á mannúðlegan hátt, ellegar blasi við að félagið skipti um lukkudýr,“ segir á vef KFÍ.

„Ekki eru svo mörg ár liðin síðan KFÍ mótmælti opinberlega ísbjarnardrápi, en mönnum brá ekki eins við þegar vígið var t.d. í hlíðum Tindastóls, en spyrja sig nú hvort bangsi sé hvergi óhultur lengur. Þetta síðasta ísbjarnarvíg er sem sagt litið jafnvel enn alvarlegri augum en þau hin fyrri, einkum sökum þess að nú var dýrið fellt nánast í bakgarði félagsins!“

Á vef félagsins er tekið fram að ísbjarnarvígið setji ekki áætlanir um körfuboltabúðir 2011 í uppnám. Þó sé alveg ljóst að ekki verði bókaður leikari til þess að fara í lukkudýrsbúninginn á þessari hátíð barnanna – „það þykir bara ekki óhætt“.

Að lokum er velt upp hugmynd að nýju lukkudýri. „Kannski er eðlilegt að félagið geri heimskautarefinn að nýju lukkudýri? Hann er að minnsta kosti friðaður í griðlandi sínu hér í nágrenninu.“

Vefur bb.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert