Munaði rúmlega þúsund krónum

4% verðmunur reyndist vera á matarkörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum síðastliðinn mánudag, að því er segir í tilkynningu frá ASÍ. Matarkarfan var ódýrust í Bónus þar sem hún kostaði 24.420 kr. en dýrust í Nettó á 25.437 kr. sem er 1.017 kr. verðmunur. Kostur neitaði þátttöku í könnuninni.

Fram kemur í tilkynningu ASÍ að mestur verðmunur var á vanillusykri. Hann var dýrastur í Krónunni þar sem kílóið kostaði 3.750 kr. en ódýrastur í Nettó en þar kostaði kílóið 1.500 kr. Verðmunurinn er 150%.

Mikill verðmunur var einnig á rúðuúða en lítrinn af honum var dýrastur í Krónunni á 498 kr. en ódýrastur í Bónus þar sem lítrinn kostaði 259 kr. Verðmunurinn var 92%.

Einnig var töluverður verðmunur á ódýrasta þurrfóðrinu fyrir hunda sem  var dýrast í Bónus og Nettó, 373 kr./kg. en ódýrast á 225 kr./kg. í Krónunni. Munurinn nam 66%.

Hægt er að lesa nánar um niðurstöðurnar hér.

Í tilkynningu frá ASÍ kemur fram að vörukarfan samanstendur af 72 almennum neysluvörum til heimilisins t.d. mjólkurvörum, morgunkorni, grænmeti, kjöti, drykkjavörum, ásamt ýmsum pakkavörum, dósamat og fleiru. Aðeins er um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu. 
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert