„Eins og fram hefur komið er stjórn SA reiðubúin að leggja mikið að mörkum til þess að ná þessum samningum og er að teygja sig ansi langt til þess,“ segir Hörður Vilberg, upplýsingafulltrúi Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is. Búist er við að kjarasamningar muni nást í kvöld eða nótt.
Hann segir ljóst að ef innistæða á að vera fyrir þeim hækkunum sem verið væri að semja um þá þyrfti margt að ganga upp í efnahagslífinu og allir að leggjast á eitt til þess að tryggja að svo verði.
Aðspurður sagðist Hörður ekki vita til þess að neitt bakslag hefði enn orðið í viðræðunum sem staðið hafa yfir í allan dag. Hann sagðist halda að þær væru að mjakast í rétta átt en það væri í mörg horn að líta.
„Mér heyrðist stemningin vera þannig að menn ætluðu bara að sitja þar til þeir sæju til lands. Menn vilja forðast verkföll í lengstu lög,“ segir Hörður.