Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarráði Kópavogs gagnrýndu á síðasta fundi ráðsins að kostnaður bæjarins vegna sumardagsins fyrsta hafi numið ríflega 800 þúsund krónum, sem sé 500 þúsund krónum meira en kynnt var í bæjarstjórn. Ákvörðun um að leggja af áratuga hefð var hörmuð.
Sjálfstæðismenn létu bóka, að úr því fjármagn hafi fundist til að verja á sumardaginn fyrsta hefði verið nær að meirihlutinn hefði haldið sig við hefðbundna dagskrá með skrúðgöngu og skemmtiatriðum í samstarfi við skátana. Það hefði að auki verið ódýrara fyrir bæjarfélagið.
Bæjarstjórn Kópavogs hafði samþykkt á fundi sínum að bjóða bæjarbúum frítt í sund á sumardaginn fyrsta og bjóða upp á dagskrá í sundlaugum bæjarins. Auk þess var hægt að kaupa árskort í laugarnar á hálfvirði.
Fulltrúi Framsóknarflokks í bæjarráði lét bóka, að ljóst væri að tilraunin hefði mistekist. „Legg til að í framtíðinni verði haldið sig við S-in fjögur á sumardaginn fyrsta: Skrúðgöngu, skólahljómsveitina, skátana og skemmtiatriði.“
Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingar, sagði þá, að ekki væri bæði sleppt og haldið. „Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lýst yfir áhyggjum sínum í ræðu og riti vegna minni aðsóknar í sundlaugar Kópavogs. Nú þegar við reynum að auka aðsókn í laugarnar með sérstöku markaðsátaki, finna þeir því allt til foráttu. Spes!“
Sjálfstæðismenn gripu orð Guðríðar á lofti og bókuðu á móti, að „spes“ væri að fara hálfri milljón króna fram úr eigin áætlun.