Fulltrúar atvinnurekenda og launþega stefna á að ná kjarasamningi í nótt. Viðræður hafa staðið yfir í allan dag og munu standa fram á nótt, eftir því sem fram kom í fréttum Ríkissjónvarpsins.
Í fréttum Ríkisútvarpsins kom fram að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands séu bjartsýnir á að klára gerð kjarasamninga á næsta sólarhring. Stefnt sé að því að gera þriggja ára samning.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði í samtali við RÚV að bæta þyrfti við það sem hefði verið uppi á borðum 15. apríl þegar slitnaði upp úr viðræðum.