Telja ákæruna ekki uppfylla skýrleikakröfur

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, og Jakob R. Möller, verjandi …
Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, og Jakob R. Möller, verjandi Tryggva Jónssonar. mbl.is/ÞÖK

Verjendur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónssonar og Kristínar Jóhannesdóttur kröfðust þess fyrir dómi í morgun að máli ákæruvaldsins á hendur þeim verði vísað frá dómi sökum annmarka á ákæru. Telja þeir ákæruna ekki uppfylla skýrleikakröfur laga.

Málið er hluti hins upphaflega Baugsmáls en lýtur að meintum skattalagabrotum ákærðu, bæði persónulega og í starfi Baugs og Gaums. Verjendur þeirra hafa áður reynt að fá málinu vísað frá en án árangurs.

Að þessu sinni báru verjendurnir við að engin leið væri fyrir ákærðu að átta sig á sakargiftum af ákærunni einni. Vísuðu þeir í dóm Hæstaréttar í máli 420/2005 máli sínu til stuðnings en þá vísaði Hæstiréttur stórum hluta ákærunnar í Baugsmálinu frá vegna annmarka á ákærunni. Áður hafði héraðsdómur vísað allri ákærunni frá dómi. Dómari þá var Pétur Guðgeirsson en hann dæmir einnig í skattahluta Baugsmálsins.

Verjendur sögðu dóm Hæstaréttar hafa skýrt fordæmisgildi en í honum segir meðal annars að til að fullnægja lagaskilyrðum verði verknaðarlýsing í ákæru að vera það greinargóð og skýr að ákærði geti ráðið af henni hvaða refsiverð háttsemi honum er gefin að sök og hvaða refsilagaákvæði hann er talinn hafa brotið, án þess að slík tvímæli geti verið um það að með réttu verði honum ekki talið fært að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum gegn þeim.

Héldu verjendur því fram að ákæran í skattamálinu væri haldin þeim annmörkum að ákærðu gætu ekki lesið úr henni verknaðarlýsingu.

Fordæmi fyrir framsetningunni

Helgi Magnús Gunnarsson, settur ríkislögreglustjóri, sagði af og frá að vendipunktur hefði orðið með umræddum dómi Hæstaréttar, auk þess sem þar hafi verið til umfjöllunar margskonar auðgunarbrot, ekki skattalagabrot. Hann vísaði í sambærileg mál þar sem ákæra var sett fram á sama hátt, án þess að við það hafi verið gerð athugasemd.

Þá sagði hann, að skýrt kæmi fram í ákærunni hvert sakarefnið væri og ákærðu fært að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum. Og það gætu þeir af ákærunni einni.

Dómari sagði að loknum málflutningi að úrskurður yrði kveðinn upp á næstu dögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert