Vilja reyna að ná 3 ára samningi

Stjórn Samtaka atvinnulífsins ákvað á fundi í dag að láta enn á ný reyna á vilja ASÍ og landssambanda þess til að ljúka gerð þriggja ára kjarasamnings á svipuðum forsendum og áður.

Samtökin segjast því ætla að hitta viðsemjendur sína á fundi í dag kl. 15 hjá ríkissáttasemjara til að freista þess að ljúka gerð nýs kjarasamnings á almennum vinnumarkaði.

„Þegar viðræðum um kjarasamning var slegið á frest fyrir páska lá fyrir grunnur að kjarasamningi aðila en út af stóðu nokkur mál sem ræða þurfti nánar við ríkisstjórnina. Á fimmtudagskvöld í síðustu viku bárust ný drög að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana. Að mati SA var þar komið að nokkru til móts við sjónarmið samtakanna um auknar framkvæmdir í hagkerfinu auk þess sem sett var fram ákveðin bókun um meðferð frumvarps um sjávarútvegsmál. Ljóst er að ríkisstjórnin er óbundin af yfirlýsingunni náist ekki kjarasamningar til þriggja ára," segir í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert