Bjóða 1% til viðbótar

Fundað var í öllum skúmaskotum Karphússins í gærkvöldi. Þorbjörn Guðmundsson, …
Fundað var í öllum skúmaskotum Karphússins í gærkvöldi. Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, og Sigurður Bessason, formaður Eflingar - stéttarfélags í Reykjavík fara yfir skjal og Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins lítur yfir axlir þeirra. mbl.is/Árni Sæberg

Samtök atvinnulífsins buðu Alþýðusambandi Íslands meiri hækkun launa og breytingar á formi skammtímasamnings til þess að koma aftur af stað samningaviðræðum um kjarasamning til þriggja ára.

Samninganefndir sátu á fundum fram á nótt. Stefnt er að því að undirrita nýja kjarasamninga eftir hádegið í dag.

Fundir voru boðaðir í Karphúsinu í gær og dag í deilum aðildarsambanda og félaga ASÍ við vinnuveitendur. Samböndin voru með kröfur um skammtímasamning en SA vill semja til þriggja ára.

„Við notuðum gærdaginn [mánudaginn] og morguninn til að funda með SA. Ljóst var að gera yrði breytingar á formi samningsins og efni. Meira þurfti til,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í gærkvöldi og bætti því við að viðbrögð vinnuveitenda hefðu verið með þeim hætti að ASÍ hefði talið nauðsynlegt að láta reyna á samninga áður en formlegur undirbúningur verkfallsaðgerða hæfist. Jafnframt fengu forystumenn ASÍ breytingar á orðalagi í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á fundi með fulltrúum hennar í gær.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, staðfesti að samtökin hefðu hækkað tilboð sitt um launahækkanir um 1%, þannig að laun myndu hækka um tæp 13% á þremur árum. Þá verður eingreiðslum sem SA höfðu boðið breytt í varanlegar launahækkanir sem munu haldast, jafnvel þótt fyrirvarar sem gerðir eru vegna aðkomu ríkisvaldsins virkist og samningar renni út 1. febrúar á næsta ári. 

Fundað í öllum sölum

Fundað var í öllum fundasölum Karphússins í gærkvöldi og um 150 manns að störfum í húsinu. Verið var að ganga frá síðustu lausu endunum í samningum aðildarsambanda ASÍ við SA. Að því búnu átti að ganga frá heildarpakkanum hjá samninganefndum ASÍ og SA.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert