Fréttaskýring: Erfitt að skilja Kjalarnes frá Reykjavík

Grundarhverfi á Kjalarnesi.
Grundarhverfi á Kjalarnesi. www.mats.is

Kjalnesingar eru margir á því að ekki hafi verið staðið við fyrirheit sem gefin voru við undirbúning sameiningar Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar árið 1997. Kornið sem fyllti mælinn var lokun móttökustöðvar Sorpu á dögunum.

Ásgeir Harðarson, formaður Íbúasamtaka Kjalarness, staðfesti að á Kjalarnesi væri það rætt í fullri alvöru á meðal fólks að freista þess að slíta sameiningunni. Skilnaður frá Reykjavík er þó ekki á stefnuskrá íbúasamtakanna.

„Við gerðum samkomulag,“ sagði Ásgeir. „Annars vegar létu Kjalnesingar af hendi gríðarmikið land svo stærð Reykjavíkurborgar tvöfaldaðist. Hins vegar var okkur tryggð sambærileg þjónusta og er í öðrum hverfum. Fari annað hlýtur hitt að ganga til baka.“

Ásgeir kvaðst hafa upplýsingar um að í Tékklandi hafi verið kosið um aðskilnað tveggja svæða við borgina Brno löngu eftir sameiningu. Þá endurheimti þorp eitt sjálfstæði sitt eftir sameiningu við borgina Novy Jicin.

Skipting krefst lagabreytingar

Setja þarf lög til að skipta upp sveitarfélagi, að sögn Guðjóns Bragasonar, sviðsstjóra lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann sagði að í sveitastjórnarlögum sé ekki kveðið á um heimild til að skipta sveitarfélögum. Félagsmálaráðuneytið gaf út álit 2001 varðandi erindi um að skipta upp Húnaþingi vestra. Þar kemur m.a. fram að hægt sé að skipta sveitarfélagi, þar sem íbúar hafi verið færri en 50 í þrjú ár, á milli sveitarfélaga og sameina þeim. Þar kemur og fram, líkt og í öðru áliti frá 1999 varðandi fyrirspurn um flutning jarðar í annað sveitarfélag, að óheimilt sé að breyta mörkum sveitarfélaga nema með lögum.

Þrátt fyrir það getur ráðuneytið þó breytt mörkum sveitarfélaga til staðfestingar á samkomulagi milli sveitarstjórna og eru allmörg dæmi um slíkar breytingar á sveitarfélagamörkum. Einnig hafa mörk sveitarfélaga breyst á undanförnum árum við sameiningu sveitarfélaga. Þess vegna þurfti ekki að breyta lögum vegna sameiningar Reykjavíkurborgar og Kjalarneshrepps 1998, en hún var ákveðin í íbúakosningum í báðum sveitarfélögum.

Draga þarf úr miðstýringu

Vaxandi tilhneigingar gætir í ýmsum nágrannalöndum til þess að færa stjórn nærþjónustu nær íbúunum og draga úr miðstýringu. Þorleifur Gunnlaugsson, varaborgarfulltrúi og formaður Hverfisráðs Árbæjar, hefur kynnt sér þá þróun og vill að Reykvíkingar hugi að slíkum breytingum. Hann minnti á að að gerðar hafi verið stjórnkerfisbreytingar í Reykjavíkurborg 2005 og 2006. Þá voru stofnaðar þjónustumiðstöðvar og hverfisráðin efld. Þorleifur sagði að þar hafi m.a. verið horft til breytinga sem gerðar voru í Ósló í Noregi.

„Í hverju hverfi voru kosnir 15 hverfisráðsfulltrúar. Hverfin fengu um helming af útsvarinu, eftir jöfnunarsjóð, til ráðstöfunar og voru töluvert sjálfráð,“ sagði Þorleifur. Hann sagði að þar virkuðu þjónustumiðstöðvarnar eins og lítil ráðhús.

Þorleifur taldi að þessi þróun sé að breiðast út um Skandinavíu og víðar í anda nútímalegs íbúalýðræðis. Hann sagði að breytingar í þessa átt gætu komið til móts við þarfir Kjalnesinga líkt og annarra.

„Meirihlutinn í Reykjavík hefur ekki farið út í þetta heldur einhverjar undirráðstafanir sem koma öllu upp í loft. Auðvitað hefði verið betra að hafa t.d. skólamálin á forræði íbúanna,“ sagði Þorleifur.

„Olnbogabarnið“

„Kjalarnes er olnbogabarn í Reykjavík,“ sagði Þorleifur Gunnlaugsson varaborgarfulltrúi. Hann kvaðst telja að fjarlægð Kjalarness frá borginni hefði orðið til þess að því hefði verið minna sinnt en ella. „Ég tel að kerfi þar sem Kjalnesingar hefðu meira um sín mál að segja myndi breyta miklu fyrir þá,“ sagði Þorleifur.

Hann kvaðst hafa það eftir ráðamönnum í Ósló að færsla verkefna út í hverfi borgarinnar hefði skilað um 10% hagræðingu í rekstri. „Meginskýringin á því var sú að nærumhverfið fór betur með fé,“ sagði Þorleifur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert