Kjalnesingar eru margir á því að ekki hafi verið staðið við fyrirheit sem gefin voru við undirbúning sameiningar Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar árið 1997. Kornið sem fyllti mælinn var lokun móttökustöðvar Sorpu á dögunum.
Ásgeir Harðarson, formaður Íbúasamtaka Kjalarness, staðfesti að á Kjalarnesi væri það rætt í fullri alvöru á meðal fólks að freista þess að slíta sameiningunni. Skilnaður frá Reykjavík er þó ekki á stefnuskrá íbúasamtakanna.
„Við gerðum samkomulag,“ sagði Ásgeir. „Annars vegar létu Kjalnesingar af hendi gríðarmikið land svo stærð Reykjavíkurborgar tvöfaldaðist. Hins vegar var okkur tryggð sambærileg þjónusta og er í öðrum hverfum. Fari annað hlýtur hitt að ganga til baka.“
Ásgeir kvaðst hafa upplýsingar um að í Tékklandi hafi verið kosið um aðskilnað tveggja svæða við borgina Brno löngu eftir sameiningu. Þá endurheimti þorp eitt sjálfstæði sitt eftir sameiningu við borgina Novy Jicin.
Þrátt fyrir það getur ráðuneytið þó breytt mörkum sveitarfélaga til staðfestingar á samkomulagi milli sveitarstjórna og eru allmörg dæmi um slíkar breytingar á sveitarfélagamörkum. Einnig hafa mörk sveitarfélaga breyst á undanförnum árum við sameiningu sveitarfélaga. Þess vegna þurfti ekki að breyta lögum vegna sameiningar Reykjavíkurborgar og Kjalarneshrepps 1998, en hún var ákveðin í íbúakosningum í báðum sveitarfélögum.
„Í hverju hverfi voru kosnir 15 hverfisráðsfulltrúar. Hverfin fengu um helming af útsvarinu, eftir jöfnunarsjóð, til ráðstöfunar og voru töluvert sjálfráð,“ sagði Þorleifur. Hann sagði að þar virkuðu þjónustumiðstöðvarnar eins og lítil ráðhús.
Þorleifur taldi að þessi þróun sé að breiðast út um Skandinavíu og víðar í anda nútímalegs íbúalýðræðis. Hann sagði að breytingar í þessa átt gætu komið til móts við þarfir Kjalnesinga líkt og annarra.
„Meirihlutinn í Reykjavík hefur ekki farið út í þetta heldur einhverjar undirráðstafanir sem koma öllu upp í loft. Auðvitað hefði verið betra að hafa t.d. skólamálin á forræði íbúanna,“ sagði Þorleifur.
Hann kvaðst hafa það eftir ráðamönnum í Ósló að færsla verkefna út í hverfi borgarinnar hefði skilað um 10% hagræðingu í rekstri. „Meginskýringin á því var sú að nærumhverfið fór betur með fé,“ sagði Þorleifur.