Frá og með morgundeginum verða ókeypis blöð í 22 vögnum Strætó, sem farþegar geta annað hvort lesið á meðan ferðalaginu stendur eða tekið með sér heim.
Þau blöð sem verða í boði í vögnunum eru Finnur.is og Monitor, sem koma út á fimmtudögum, Fréttatíminn, sem kemur út á föstudögum, og Grapevine, sem einnig fer í dreifingu á föstudögum, þær vikur sem það kemur út.
Um er að ræða tilraunaverkefni og verður boðið upp á þjónustuna í hluta vagnflotans til að byrja með. Framhaldið mun síðan ráðast af viðtökum farþega.
„Við hjá Strætó erum alltaf að leita leiða til að gera ferðina ánægjulegri fyrir farþega okkar og er þetta verkefni liður í því. Fjölmörg áhugaverð blöð eru gefin út í viku hverri og þótti okkur og útgefendum þessara fjögurra blaða þjóðráð að veita farþegum með þessum hætti aðgang að þeim til að stytta sér stundir á meðan akstrinum stendur,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.