Opnunartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu standa nú sem hæst en hlýða má á þá á Rás 1. Í ávarpi sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ritar í dagskrá tónleikanna segir að með húsinu séu runnir upp nýir tímar í menningarsögu þjóðarinnar.
Á dagskrá tónleikanna er Níunda sinfónía Beethovens undir stjórn Vladimirs Ashkenazy, píanókonsert Griegs og nýtt verk Þorkels Sigurbjörnssonar.
Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikar, sem leikur píanókonsert Griegs á tónleikunum, tók eitt aukalag, Ave Maria eftir Sigvalda S. Kaldslóns við fögnuð viðstaddra.
Hamraborg og huliðsheimur
Ávarp forsetans er svohljóðandi:
„Álfaklettur; hamraborg og huliðsheimur ævintýra; ljúfir tónar, fagrar raddir. Í ljóðum fyrri tíðar var harpan tákn um drauma þjóðar, list og fegurð sem færir lífinu nýjar víddir.
Þótt fyrstu hljóðfærin kæmu í torfbæi og lágreist timburhús við fjörukambinn var tónlistin lengi að ná hér þroska, verða burðarás í menningarlífi Íslendinga.
Þegar Vladimir Ashkenazy kom hingað fyrst voru frumherjarnir enn að verki, tónskáldin sem ung héldu út í heim til að geta svo síðar rutt hér brautir. Stofnun Sinfóníuhljómsveitarinnar fyrir rúmum sextíu árum fól í sér heitstrengingu um nýja tíma, metnað til að láta að sér kveða á vettvangi listar sem löngum var talin hin æðsta.
Nú er hljómsveitin komin í fremstu röð og vígir Hörpu ásamt Ashkenazy, ungum píanósnillingi, ástsælu tónskáldi og öflugum kór; öðlast hér við hafið ný heimkynni sem einnig eru ætluð fjölþættri listsköpun þeirra sem í framtíðinni munu stíga á sviðið.
Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu eru upphaf nýrra tíma í menningarsögu þjóðarinnar.“