Rottweilertíkin sem numin var á brott af hundahótelinu á Arnarstöðum í Flóa er komin í leitirnar en hún er nú á heimili eiganda síns á Akureyri.
Að sögn lögreglunnar á Selfossi, sem fer með málið, bárust henni fregnir af hundinum í íbúðarhúsi eigandans. Var farið fram á húsleitarheimild eftir að eigandi neitaði lögreglu aðgangi að húsinu en fyrir dómi upplýsti verjandi eigandans að hundurinn væri sannarlega á heimilinu. Hann yrði hins vegar ekki afhentur lögreglu.
Dómari neitaði hins vegar að veita lögreglu húsleitarheimildina, á þeim forsendum að ekki lægi fyrir óyggjandi sönnun þess að eigandi hundsins tengdist brottnámi hans af hundahótelinu.
Lögreglan á Selfossi íhugar nú næstu skref en niðurstaða dómara kom starfsmönnum embættisins talsvert á óvart. Er litið svo á að þar sem hundurinn var í haldi lögreglu þegar hann var numinn á brott, sé hann þýfi og fara eigi með málið á þeim forsendum.