Norska lögreglan vill að Schengen-samningurinn verði endurskoðaður. Segir lögreglan að mikil aukning hafi orðið á skipulagðri glæpastarfsemi á Norðurlöndum frá því samningurinn tók gildi og það tengist einkum glæpastarfsemi í Eystrasaltsríkjunum.
Egil Haaland, formaður norska lögreglufélagsins, segir í viðtali við eistneska blaðið Posteemes í dag, að glæpamenn frá Eystrasaltslöndunum þremur, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, beri ábyrgð á miklum meirihluta þeirra glæpa sem framdir eru á Norðurlöndunum.
„Opin landamæri í Evrópu hafa leitt til þeirrar stöðu, að 80% glæpa, sem framdir eru í Noregi og á öðrum Norðurlöndum, tengjast glæpamönnum sem annaðhvort eru frá Eystrasaltslöndunum eða hafa tengsl við skipulagða glæpastarfsemi þar," sagði Haaland.
Hann vísaði í nýlegt bréf frá norsku lögreglunni til dómsmálaráðuneytis Noregs þar sem segir, að ef Eystrasaltslöndin grípi ekki til raunhæfra aðgerða gegn glæpamönnum, sem einnig fremja glæpi á Norðurlöndunum, verði að endurskoða Schengen-samninginn.
Posteemes dró yfirlýsingar Haalands í efa og vísaði til norskra afbrotaupplýsa því til stuðnings. Sagði blaðið, að ásakanir Haalands jöðruðu við kynþáttahatur.
Alls eiga 25 Evrópuríki aðild að Schengen-samningnum, 22 aðildarríki Evrópusambandsins auk Íslands, Noregs og Sviss. Um er að ræða samstarf á sviði landamæraeftirlits og löggæslu sem á að auðvelda ferðir fólks innan Schengensvæðisins með því að afnema vegabréfaskoðun á innri landamærum þess.